Nettó Glerártorgi
Verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri, sem er í eigu félagsins, er vel þekkt. Glerártorgið er stærsta verslunarmiðstöð Norðurlands og hefur þjónað íbúum þess og Austfjarða með alla helstu þjónustu í rúmlega tuttugu ár og er hvergi nærri hætt. Nýjasta rósin í hnappagatið er stórglæsileg, umhverfisvæn og björt verslun Nettó, sem flutti nýverið til innan verslunarmiðastöðvarinnar í mikið endurbætt 2000 fm rými. Samkaup sem reka m.a Nettó, reka fjórar Nettó verslanir á Akureyri, er stór vinnustaður og góð viðbót við annars blómlegt atvinnulíf. Margir tengja Nettó við Akureyri enda opnaði fyrsta verslun Nettó í samstarfi við KEA árið 1989, en nú eru 20 Nettó verslanir víða um land. Heiðar Róbert Birnuson er rekstrarstjóri Nettó og hittum við hann á þessum spennandi tímamótum.
Skýr umhverfisstefna og stöðugt verið að leita nýrra leiða
"Undanfarið höfum við verið að breyta verslunum okkar í samræmi við þá skýru umhverfisstefnu sem nær til allrar starfssemi Nettó/Samkaupa. Það felur í sér að við erum stöðugt að leita leiða til að bæta umhverfið, draga úr sóun og markvisst bæta árangur og orkusparnað. Þessi nýja verslun okkar á Glerártorgi á Akureyri er okkar nýjasta flaggskip og fimmta græna verslunin og til stendur að innleiða þetta í fleiri verslanir. Á Glerártorgi er t.d. kælikerfið keyrt á koltvísiringi (CO 2 ), kælar og frystar eru með lokuðum hurðum, sem sparar orku og við notum eingöngu LED lýsingu. Þetta samræmist algjörlega okkar umhverfismarkmiðum. Eftir breytingarnar er aðgengið að versluninni allt annað, við erum með sérinngang,sem þýðir að við getum algjörlega stýrt opnunartímanum. Við opnun kl 9 og erum með opið til kl 20 alla daga, eins alla daga, óháð því hvort að aðrar verslanir Glerártorgs eru opnar eða ekki. Nú gengur fólk beint inn í verslunina, það styttir leiðina og frábært að geta komið til móts við viðskiptavinina á þennan máta. Viðtökur hafa verið alveg ótrúlega góðar og við höfum fengið talsvert hrós fyrir uppsetningu og uppbyggingu verslunarinnar og við merkjum mælanlega aukningu á innkaupum viðskiptavina.”
Undirbúningur flutninga og aðkoma starfsfólks
˶Að flytja og opna nýja verslun er heilmikið fyrirtæki og til þess að allt gengi upp fengum við aðstoð frá verslunarstjórum og öðru starfsfólki Samkaupa, víðsvegar af landinu. Þau komu norður og aðstoðuðu annars frábært teymi Kristjönu Ernu verslunarstjóra Nettó á Glerártorgi. Við hófum starfið í nóvember 2022 eftir að búið var að brjóta loft og fjarlægja rúllustiga og annað sem við óskuðum eftir frá Eik fasteignafélagi. Björt og skínandi verslun opnaði svo á tilsettum tíma í febrúar á þessu ári. Það hefði aldrei gengið að opna þessu 2000fm 2 verslun nema fyrir samheldni starfsfólks, sem er okkar helsta auðlind. Því án frábærs starfsfólks er lítið hægt að gera og því ómetanlegt að Nettó búi yfir þessum mannauði. Sem þakklætisvott héldum við opnunarpartý fyrir starfsmenn, sveitastjórnir og verktaka að verki loknu. Daginn eftir klukkan 9 opnuðum við svo fyrir viðskiptavini sem hafa svo sannarlega kunnað að meta þessar breytingar. Við stækkuðum ekki aðeins verslun okkar á Glerártorgi heldur fórum einnig í samstarf við Fiskkompaníið, sem er norðlenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ferskum fiski og kjöti, sem starfar nú innan veggja Nettó.”
Samfélagsleg ábyrgð og græn vegferð Nettó
˶Nettó hefur í áraraðir sinnt samfélagslegri ábyrgð, stefnt að minni sóun og bættu umhverfi með því að forðast brottkast og nýta allt eins mikið og kostur er. Einn liður í þessu eru matargjafir til Hjálpræðishersins sem hefur verið í samstarfi við okkur í nokkur ár. Í stað þess að farga matvörum sem eru að komast á síðasta söludag eru þær gefnar til Hjálpræðishersins sem nýtir þær til að framleiða ljúffengar máltíðir sem renna ofan í jaðarsett fólk sem hefur ekki tök á því að kaupa sér næringarríkan mat sjálft Þetta samstarf hefur reynst afar vel og við erum ánægð með þessa nýtingu. Einnig setjum við vörur sem eru að nálgast síðasta söludag á sérstakan afslátt í verslunum okkar, allt til að minnka matarsóun. “
Mannauður og leiðtoganám
,,Mannauðurinn er það dýrmætasta sem við eigum og okkar stefna er að starfsfólki okkar líði vel í vinnunni og hverskonar mismunun er ekki liðin. Við viljum styðja starfsfólk okkar í að vaxa og dafna og ein leið í þeirri vegferð er svo kallað ,,Forysta til framtíðar - leiðtoganám,” sem haldið er í samvinnu við Háskólann á Bifröst en námið gefur ECT einingar. Öllum verslunarstjórum hjá Samkaupum stendur það til boða. Námið er tekið meðfram vinnu, er í fjórum staðlotum með mismunandi áherslum á verslunarrekstri, og nær yfir níu mánaða tímabil. Á milli lota eru svo rafrænir fundir og ýmis verkefnaskil. Náminu lýkur svo með nemendaferð til Coop í Danmörku þar sem verslunarstjórnarnir okkar fá að kynnast kollegum sínum þar, geta skipst á skoðunum og reynslu og aflað sér nýrrar þekkingar. Við erum í talsvert miklu samstarfi við Norðurlönd og þá aðallega við Coop í Danmörku. Við flytum inn vörur þaðan, vörur eins og Änglamark, Extra og Coop. Einnig þróuðum við vildarappið okkar í samvinnu við Dani, en það hefur notið mikilla vinsælda og ríflega 60.000 manns hafa nýtt sér það og stöðugt bætast fleiri við.”
Hver er Heiðar Róbert?
,,Það má eiginlega segja að ég sé alinn upp hjá Samkaupum sem reka Nettó, ég byrjaði sem unglingur, árið 2006 og hef unnið í öllum störfum innan félagsins og byrjaði minn feril í framlínunni. Ég hef komið nálægt flestum snertiflötum hjá Samkaupum og tók við sem rekstrarstjóri Nettó í byrjun árs 2022. Þetta er afskaplega gefandi og fjölbreytt, en jafnframt krefjandi starf, og má segja að enginn dagur er eins hjá mér. Ég held vikulega rafræna fundi með verslunarstjórum Nettó sem eru dreifðir um landið og svo hittumst svo tvisvar til þrisvar sinnum á ári augliti til auglitis á sameiginlegum fundum og viðburðum. Ég heimsæki líka reglulega verslanir, heyri í fólkinu, því mannauðurinn er það mikilvægasta sem fyrirtækið á. Ég bý núna í Reykjanesbæ, en hef búið víða um land og í frítíma mínum stunda ég útivist og samveru með fjölskyldunni. Svo er fátt betra eftir langan og strangan vinnudag, og ótal símtöl,en að skella sér í golf og hreinsa hugann. “