Þróunarsetur Össurar
Heilbrigðistæknifyrirtækið Össur opnaði nýtt og glæsilegt Þróunarsetur að Grjóthálsi 1 þann 28. ágúst 2023. Um er að ræða rúmlega 3.200 fermetra viðbyggingu í eigu Eikar fasteignafélags, við höfuðstöðvar félagsins, sem heldur vel utan um þann öfluga hóp sem þar starfar við rannsóknar- og þróunarstarf. Um 120 manns hefur vinnuaðstöðu þar við að hanna og þróa stoðtæki fyrir þá sem hafa misst útlimi. Nýsköpun og vöruþróun hafa alltaf verið hjartað í starfsemi fyrirtækisins og með þessu nýja rými verður til enn öflugra Þjónustusetur á Íslandi.
Hvernig var staðið að hönnun Þróunarsetursins?
,,Hjá Össuri hefur alla tíð verið starfrækt Þróunardeild en hún hefur verið dreifð um allt hús. Því þurfti að breyta og í ársbyrjun 2020 var ákveðið að sameina alla þá sem unnu að vöruþróun á einn stað og stofna sérstakt Þróunarsetur. Við fengum góðan hóp hér innanhúss til að koma að verkinu, fólk með ólíka menntun og bakgrunn og um leið ólíka sýn. Auk þeirra unnu að þessu nokkrir arkitektar sem hafa unnið fyrir Össur að húsnæðisverkefnum í starfsstöðvum félagsins víða um heim. Í samstarfi við frábært starfsfólk frá Eik varð þessi langþráði draumur að veruleika og við erum öll mjög ánægð með útkomuna.
Eins og allir muna skall á heimsfaraldur svo við unnum öll meira og minna heima hjá okkur í 18 mánuði að hönnuninni. Það var kannski ekki alltaf auðvelt og að sumu leyti hálf absúrd en eftir á að hyggja var það holt fyrir okkur. Ég held að útkoman sé óhefðbundnara húsnæði að mörgu leyti og algerlega sniðið að okkar þörfum. Við höfum yfir að ráða rýmum sem eru talsverð nýjung en til mikilla bóta fyrir starfsemina eins og t.d. hugmyndaherbergi og afar lítil fundarrými sem ætluð eru þegar tveir starfsmenn þurfa að funda en þetta hefur breytt vinnustaðamenningunni töluvert. Ef að Covid hefði ekki komið til sögunnar þá eru meiri líkur á því að þetta setur hefði orðið mun hefðbundnara og líkar því húsnæði sem hefur verið byggt fyrir Össur í gegnum tíðina. Það hefði í sjálfu sér ekki verið neitt slæmt en að mínu mati er þetta setur fullkomið fyrir það sem hér fer fram og þjónar okkar fólki eins vel og hægt er.“
Össur hf. var stofnað árið 1971 og hefur alla tíð verið með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík þar sem unnið hefur verið öflugt rannsóknar- og þróunarstarf. Aðspurð sagði Hildur að þessi hluti starfsemi Össurar hafi vaxið og dafnað í áranna rás.
Hverju mun Þróunarsetrið breyta fyrir starfsemina?
,,Rannsóknar- og þróunarstarfsemi Össurar er á nokkrum stöðum í heiminum en meirihlutinn fer fram hér á landi. Sú starfsemi hefur eflst mikið svo þetta nýja setur gerir okkur ekki bara kleift að halda áfram því öfluga starfi sem hér er unnið heldur bætir alla aðstöðu sem er ómetanlegt. Okkar markmið er að auka og styrkja þróunarstarfið hér á Íslandi. Við erum svo lánsöm að hafa góðan og fjölbreyttan hóp hjá okkur og má nefna að hér starfa sérfræðingar af nítján þjóðernum sem við erum þakklát fyrir og styrkja hópinn.
Við leggjum mikla áherslu á mannauðinn. Starfsaðstaðan er mjög góð og við finnum að fólk vill koma og vinna hjá okkur og við getum þar af leiðandi skilað betri vörum til þeirra sem þess þurfa svo virkilega.“
Aðspurð sagði Hildur það algengan misskilning að það væru eingöngu verkfræðingar sem ynnu að þróunarstarfi Össurar.
,,Hjá Össuri starfa nú um 4000 manns á 36 starfstöðvum um allan heim en þar af vinna um 700 manns á Íslandi. Starfsfólk þróunardeildar eru verkfræðingar með ólíkar gráður og reynslu, hér eru einnig viðskiptafræðingar, iðnhönnuðir, starfsfólk með klínískan bakgrunn eins og læknar, sálfræðingar, iðjuþjálfarar og sjúkraþjálfarar. Hér er líka mikilvægur hópur stoðtækjanotenda sem gefa ómetanlega innsýn í þær klínísku þarfir sem þarf að leysa.
Ástæðan fyrir þessum fjölbreytta hópi er að þeir sem þurfa á okkar vörum að halda hafa mismunandi þarfir og taka þarf tillit til margra þátta eins og kyns, aldurs, bakgrunns og menningu. Hér má líka nefna að það er ekki bara að konur og karlar hafa ólíka útlimi heldur er líkami konunnar þannig að hann breytist ekki bara eftir aldri heldur hvar hún er stödd í tíðarhringnum eða hvar á breytingaskeiðinu svo eitthvað sé nefnt. Það að við fáum sálfræðinga til starfa er afar brýnt því eins og fólk getur ímyndað sér þá hefur það gríðarleg andleg áhrif að missa útlim – meiri en margir halda. Svo það er að mörgu að hyggja.“
Hvernig var samstarf ykkar og Eikar fasteignafélags?
,,Samstarfið var mjög gott frá upphafi. Eik var strax opið fyrir okkar hugmyndum og það var tekið tillit til okkar þarfa á allan hátt. Það hefur því skilað okkur nákvæmlega því húsnæði sem við vildum og við erum öll mjög ánægð með setrið okkar. Þetta Þróunarsetur er auðvitað mikil fjárfesting fyrir báða aðila en samstarfið var heilt og sterkt – við vorum eins og góðir félagar strax frá fyrstu kynnum“, segir hún og hlær.
En hver er Hildur?
,,Ég er ein af þeim sem vissi það strax í menntaskóla að ég vildi vinna hjá fyrirtæki eins og Össuri. Ég valdi því að fara í rafmagnsverkfræði í HÍ og stundaði framhaldsnám í Bretlandi á sviði computational neuroscience og biomechanics. Ég starfaði í nokkur ár fyrir líftæknifyrirtæki í London en stökk á tækifærið að koma til liðs við Össur undir lok árs 2008. Ég hef unnið hér í fimmtán ár og þar af síðustu tvö árin sem framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarsviðs.
Ég er gift þriggja barna móðir, á þrjár unga syni, en áður en ég eignaðist þá vann ég bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi um nokkurra ára skeið sem starfsmaður Össurar. Það var mjög dýrmætt því þannig kynntist ég betur þörfum þeirra sem nýta sér vörurnar okkar allan daginn, alla daga. Nú orðið er ég með fasta starfsstöð hér á Íslandi en ég fer þó nokkuð á milli starfsstöðva okkar um allan heim.
Ég er mjög þakklát henni ungu Hildi sem vildi vinna fyrir Össur og fór í rafmagnsverkfræðina á sínum tíma. Ef ég hefði ekki hlustað á hana þá hefði ég farið á mis við þessa skemmtilegu og mest gefandi vinnu sem ég get hugsað mér. Og það er nú ekki svo lítið.“