Menning og list í Kvosinni

28. mars 2025

Kvosin hefur oft verið sögð hjarta Reykjavíkur og það má til sanns vegar færa

Tinna Grétarsdóttir situr við skrifborð
Tinna Grétarsdóttir

Kvosin hefur oft verið sögð hjarta Reykjavíkur og það má til sanns vegar færa. Þessi lægð sem jöklar ísaldar surfu niður í grágrýti Reykjavíkur, hýsir mörg sögufræg og falleg hús og nokkur þeirra er félagið svo heppið að hafa í sinni umsjá.  Byggingarnar í Kvosinni tengjast saman um Hafnarstræti og Austurstræti, samtals um sjö þúsund fermetrar, og mynda fallega heild sem svo sannarlega hafa komið við sögu lands og þjóðar.  Austurstræti 5 er þekkt kennileiti í miðborginni, en kannski vita færri að á fimmta áratug síðustu aldar stóð þar til að reisa kvikmyndahús. Af því varð ekki og eignaðist Búnaðarbanki Íslands lóðina og reisti þar höfuðstöðvar sínar árið 1946 en það var arkitektinn Gunnlaugur Halldórsson, sem hannaði bygginguna. Og í henni hefur starfsfólk Listahátíðar í Reykjavík komið sér vel fyrir í endurnýjuðu húsnæðinu, þar sem góður andi fortíðar leikur um skapandi hugsun og listir nútíðar og framtíðar.

Tinna Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík, kemur úr þessum skapandi geira. Hún er menntaður dansari og var framkvæmdastjóri Dansverkstæðisins, vinnustofu sviðslistafólks í vesturbænum. Og hún lætur einkar vel af aðstöðunni á fjórðu hæð hússins.

„Við fluttum inn í húsið síðasta haust og það hefur verið ótrúlega ljúft að vera í þessu fallega og sögufræga húsi. Listahátíð leigir alla fjórðu hæðina og framleigir svo hluta húsnæðisins til listmiðstöðva og sjálfseignarstofnana innan listasamfélagsins. Hér er t.d. Myndlistarmiðstöðin, Safnaráð og List fyrir alla, en við vorum öll undir sama þaki í öðru þekktu húsi í miðbænum, Gimli. Að auki er hér Miðstöð íslenskra bókmennta, Sviðslistamiðstöð Íslands og svo Improv Ísland. Einnig er hér rými til að leigja pláss í styttri tíma og nú er einmitt kvikmyndaframleiðandi hér við vinnu. Svo hér svífur svo sannarlega listrænn andi yfir vötnum,“ segir Tinna.

Eins og áður sagði var Listahátíð áður til húsa í Gimli og segir Tinna það hafa verið nauðsynlegt að stækka aðstöðuna, sem húsnæðið í Austurstræti býður einmitt upp á.

„Samfélag þessara eininga allra stækkar með nýju húsnæði og hér höfum við líka aðgengi fyrir fatlaða, sem fyrra húsnæði bauð ekki upp á. Gangar voru þröngir og ekki hægt að ráðast í breytingar en í þessu húsi er allt til alls og aðgengi eins og best verður á kosið. Síðustu vikur fyrir hátíð magnast álagið og starfsmannafjöldinn eykst og þá er nauðsynlegt að hafa rýmra um okkur og við getum dreift úr okkur.“

Listhátíð í Reykjavík er sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt þríhliða samningi við Reykjavíkurborg og menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytið og hefur í rúma hálfa öld nært og lyft íslensku menningarlífi á nýtt og hærra plan. Hún er svokallaður tvíæringur, þ.e.a.s. Listahátíð er haldin á tveggja ára fresti og verður næst sumarið 2026. 

„Við erum núna að auglýsa eftir Eyrarrósinni, sem er viðurkenning á menningarverkefni í landsbyggðunum og við erum að taka við umsóknum um hana. Sá sem hlýtur Eyrarrósina verður með viðburð á Listahátíð sumarið 2026. Svo auglýsum við almennt eftir viðburðum frá listafólki hvaðanæva að. Hér er mikið fundað, við erum í sambandi við listafólk í tengslum við hátíðina og línur skýrast í haust með dagskránna.  Vinnan er eilítið ósýnleg í marga augum núna, en hún skapar grunninn að glæsilegri hátíð,“ segir Tinna, sem bendir á að húsnæðið í Austurstræti sé hárréttur staður til þess. Bæði sé góður vinnufriður en aðeins þurfi að opna útidyrnar til að fá iðandi mannlíf Reykjavíkurborgar beint í æð.

„Það hefur oft verið sagt að fólk í lista- og menningargeiranum sæki gjarnan í miðbæinn, vilji helst vera sem mest þar og hér líður okkur vel, enda er þetta hús með sál. Það er mikið um að vera í tengslum við Listhátíð í miðbænum. Opnunarviðburðir eru gjarnan hér, við erum með stórar menningarstofnanir og nálægðin við þennan sameiginlega arf gerir sitt. Þetta húsnæði hentar einfaldlega Listhátíð afar vel,“ segir Tinna.

Það er ekki ofsögum sagt að eignir félagsins í Kvosinni séu vel í sveit settar, nálægt stofnbrautum og iðandi mannlíf allt um kring. Hér er um að ræða skrifstofu- og verslunarhúsnæði, lítil og stór rými tilbúin til útleigu, sturtuaðstaða og hjólageymslur og sagan á hverju strái.

„Samstarfið við Eik hefur verið afar gott og það er gaman að sjá hversu mikil alúð hefur verið lögð í að gera þetta fornfræga hús upp, færa til samtímans án þess þó að gleyma sögunni sjálfri.  Það sem er líka svo skemmtilegt við þetta húsnæði, er að þegar fólk kemur hingað upp á fjórðu hæð þá erum við á óvenjulegum sjónarhóli, að horfa yfir þökin hér í kring og fá algjörlega nýtt sjónarhorn á miðbæinn, á húsin sem við þekkjum öll.“