Men&Mice

Að Suðurlandsbraut 10 í stórglæsilegu og endurbyggðu húsnæði Eikar fasteignafélags hefur hugbúnaðarfyrirtækið Men&Mice komið sér vel fyrir á tveimur efstu hæðunum, þeirri fimmtu og sjöttu. Eik fasteignafélag fór í gríðarlegar endurbætur á húsnæðinu í samstarfi við Arkís arkitekta með það að leiðarljósi að halda gildum og útliti hússins en breyta því í samræmi við nútímakröfur. Markmiðið var að bæta ásýnd Suðurlandsbrautar, sem er fjölfarin gata með fjölbreytta starfsemi, og voru endurbæturnar gerðar með tilliti til götumyndar og ásýndar umhverfisins.

Men&Mice á efstu hæðum Suðurlandsbrautar 10

Hugbúnaðarfyrirtækið Men&Mice er eitt þeirra fyrirtækja sem flutti inn að Suðurlandsbraut 10 eftir endurbætur. Men&Mice er kannski ekki vel þekkt á Íslandi, enda hefur fyrirtækið að mestu starfað á erlendum mörkuðum síðan það var stofnað fyrir rúmum 30 árum síðan. Þeirra aðalsmerki er nýsköpun, sem og smíði hugbúnaðar sem þjónustar netkerfi fyrirtækja, en þó aðallega alþjóðlegra stórfyrirtækja með flókna netinnviði.

Gyða Jónsdóttir, COO hjá Men&Mice, hitti okkur í nýuppgerðu og ótrúlega flottu rými á 5. hæð Suðurlandsbrautar 10. Gyða hefur starfað hjá fyrirtækinu frá því 2016, eða í 7 ár, og er afar ánægð í starfi. „Árið 2021 fórum við í vinnu við að finna fyrirtækinu nýjar höfuðstöðvar en verkefnastýring á húsnæðisvali og flutningum þess voru hjá mínu teymi,“ segir Gyða. Hún útskýrir að Suðurlandsbraut varð fyrir valinu vegna staðsetningar og mikilfenglegs útsýnis. „Fyrirtækið er á fimmtu og sjöttu hæð og útsýnið er hreint út sagt ótrúlegt til allra átta!“ Starfsmenn tóku þátt í vali á nýju húsnæði. „Við stóðum frammi fyrir því að finna okkur nýtt húsnæði þar sem við vorum búin að sprengja það gamla utan af okkur. Við fórum því í þarfagreiningu á óskum starfsmanna um vinnurými og staðsetningu. Það kom í ljós að flestir sóttust eftir góðum loftgæðum, lýsingu og hljóðgæðum. Einnig skipti máli að vera miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, vera nálægt grænu svæði og verslun og þjónustu. Fyrst hélt ég að við gætum ekki uppfyllt þessar óskir allar í einu húsnæði en svo fundum við þetta rými í samstarfi við Eik fasteignafélag.“

Gyða bætir við að þegar þau komu að borðinu voru hæðirnar fokheldar svo þau tóku þátt í vali á innréttingum og hönnun frá upphafi. Við flutninga sumarið 2022 voru starfsmenn Men&Mice á Íslandi u.þ.b. 50 talsins.

Húsnæði sem uppfyllir kröfur um fjölbreytt rými

Gyða segir húsnæðið uppfylla kröfur fyrirtækisins um mismunandi rými. „Við erum með litla hópa sem þurfa sitt rými, og ólík teymi þurftu ólík rými, en rýmin voru hugsuð og hönnuð eftir því í hvaða starfi viðkomandi hópur er. Rýmið er að mestu opið en við erum líka með teymisrými og fundarherbergi af ýmsum stærðum og gerðum, frá „símaklefum“ yfir í rými fyrir stærri hópa.“ Gyða er mjög ánægð með aðstöðuna. „Þegar niðurstöður úr þarfagreiningu starfsmanna lágu fyrir og eftir að hafa skoðað hæðirnar kolféllum við fyrir rýminu og þá var ekki aftur snúið! Suðurlandsbraut 10 var málið fyrir okkur. Byggingin er miðsvæðis og margir starfsmenn nýta sér samgöngustyrki, koma gangandi eða hjólandi, en hér er læst hjólageymsla. Svo er auðvitað mýgrútur af hollum og miður hollum veitingastöðum hér í kring, í raun allt sem hægt er að hugsa sér. Svalirnar á sjöttu hæðinni höfðu mikil áhrif á valið enda ná þær allan hringinn í kringum húsið. Þær vísa í hásuður, jafnt sem norður.“ Gyða segir svalirnar vera afskaplega ljúfa viðbót við vinnuaðstöðuna á góðum sumardegi.

Skemmtilegt að taka þátt í hönnun húsnæðisins

„Það var skemmtilegt að koma að húsnæðinu algerlega tómu en í góðu samstarfi við Stáss Arkítekta og Eik fasteignafélag unnum við að því að stilla húsnæðinu upp með þarfir teymisins í huga. Gildi félagsins voru höfð að leiðarljósi við val á litum og heildaráferð við alla hönnun sem og niðurstöður þarfagreiningarinnar sem við gerðum.“ Gyða segir það m.a. hafa komið í ljós að margir voru tilbúnir til að vinna í opnu rými, en fannst næði einnig mikilvægt, svo þarfagreiningin kom að góðum notum varðandi efnisval og kröfur starfsfólks til rýmisins. Nánast hvert einasta smáatriði var hugsað út frá þörfum teymisins og öll hafa þau áhrif á heildarupplifunina af rýminu. „Það er ótrúlega skemmtilegt að skoða punktana sem við skrifuðum niður í þarfagreiningunni í dag þegar við erum hér í fullbúnu rýminu. Mér finnst eiginlega ótrúlegt hvað við náðum að uppfylla stóran hluta þeirra.“ 

Frelsi til að laga húsnæðið að sínum þörfum. Líkt og áður segir eru flestir viðskiptavina Men&Mice staðsettir utan Íslands en húsnæðið tekur einmitt mið af því að ekki þurfi að taka á móti viðskiptavinum. „Fundarherbergin er t.d. hönnuð fyrir teymin okkar sem eru að hluta dreifð á milli landshluta og heimsálfa,“ útskýrir Gyða. „Vinnuherbergin eru hönnuð svo hægt sé að halda dýnamíska fundi á skjá, með starfsfólki sem ýmist vinnur erlendis, úti á landi eða kýs að vinna heima þann daginn.“ 

Gyða segir þau afar sátt með afraksturinn af hönnunarvinnunni og að samstarfið við Eik fasteignafélag hafi verið til fyrirmyndar. „Við fengum mikið frelsi til þess að laga húsnæðið að okkar þörfum og í samræmi við gildi félagsins. Við höfum verið hér frá því 1. júní 2022 og höfum verið einstaklega ánægð.“